Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi
9. desember 2015 08:56

Tölvupóstur sem var sendur til bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins í gær þriðjudag 8.12.2015

Sæl öll ágætu aðal-og varabæjarfulltrúar og þið sem póst þennan fáið.

 

Vona að þið hafið ekki orðið fyrir tjóni eða verulegum óþægindum í hvassviðrinu í gær og í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá þeim sem stóðu vaktina í nafni Almannavarna var ekki tjón eða slys hér í Stykkishólmi af völdum veðursins. Vonandi gengur veðurofsinn hratt niður.

 

Þegar Ríkislögreglustjóri, í samráði við alla lögreglustjóra á landinu, lýsti yfir Óvissustigi vegna óvenju slæmrar veðurspár fyrir allt landið boðaði ég til fundar í gærmorgun  að höfðu samráði við Lögreglustjóra Vesturlands. Til þess fundar mættu Sigurbjartur Loftsson byggingarfulltrúi, Guðmundur Kristinsson  slökkviliðsstjóri, Þór Örn Jónsson  bæjarritari, Högni Friðrik Högnason bæjarverkstjóri, Bergur Hjaltalín umsjónarmaður fasteigna, Hrannar Pétursson hafnarvörður, Einar Strand formaður Björgunarsveitarinnar og yfirlögregluþjónn Lögregluumdæmisins á Vesturlandi Ólafur Guðmundsson.

 

Ég greindi frá tilkynningu Ríkislögreglustjóra og var farið yfir forvarnaraðgerðir í bænum og verkum skipt við að hafa samband við þá sem talið var nauðsynlegt að gættu að eignum sínum vegna hvassviðrisins og einnig skipulagðar aðrar aðgerðir svo sem að óska eftir að iðnaðarmenn væru tilbúnir að bregðast við útkalli. Í kjölfarið var sett viðvörun á heimasíðu bæjarins og haft samband við stjórnendur allra stofnana bæjarins og vakin athygli á viðvörun og hvatt til þess að gæta að nauðsynlegum forvarnaraðgerðum.

 

Að ósk Lögreglustjórans voru byggingarfulltrúi, slökkviliðsstjóri og formaður Björgunarsveitarinnar kallaðir síðdegis til starfa á Lögreglustöðinni í stjórnstöð Almannavarna fyrir Vesturland og stóðu þeir þar vaktina eftir nánari ákvörðun lögreglunnar. Slökkviliðið og Björgunarsveitin var í viðbragðsstöðu auk þess sem hafnarvörður stóð vaktina við höfnina og  starfsmenn bæjarins í Áhaldahúsi sinntu margvíslegum forvarnarverkefnum svo sem að taka niður Jólatréð í Hólmgarði til þess að koma í veg fyrir að það brotnaði í veðurofsanum sem var spáð.

 

Í viðhengi er póstur frá Lögreglustjóranum á Vesturlandi þar sem hann greinir frá framvindu aðgerða og stöðu mála.

 

Vildi láta ykkur fá þessar upplýsingar um leið og ég færi þeim bestu þakkir sem stóðu vaktina í þágu bæjarbúa.

 

Með góðri kveðju,

Sturla Böðvarsson, Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

 

Á næstunni
Stykkishólmsbær - Kt. 620269-7009 - Hafnargötu 3 - 340 Stykkishólmur - Sími 433 8100 - Fax 438 1687 - stykkisholmur@stykkisholmur.is - Starfsmenn - Veftré