Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi
18. apríl 2016 10:58

Um húsnæði grunnsskóla og bókasafna í Stykkishólmi

Vegna umræðu um húsnæði grunnskólans okkar er nauðsynlegt að fara yfir nokkra  staðreyndir.

Grunnskólinn við Borgarbraut 6  er á tveimur hæðum með kjallara undir þriðjungi hússins og  er samtals að flatarmáli um 1800 fermetrar. Þegar öll kennsla yngri deilda, sem  fór fram í gamla barnaskólahúsinu við Skólastíg var flutt í skólahúsið við Borgarbraut, var ljóst að þar yrðu mikil þrengsli. Sú ráðstöfun var hugsuð til skamms tíma.  

Árið 2010 hafði verið lokið við að teikna stækkun við grunnskólahúsið þar sem átti að vera Tónlistarskólinn og veruleg stækkun kennslurýmis. Þessi stækkun er teiknuð samtals 1546 fermetrar. Fallið var frá þeirri byggingu af fyrri meirihluta og ákveðið að lagfæra kennsluaðstöðuna í gamla skólahúsinu við Skólastíg fyrir tónlistarkennslu, en láta grunnskólann sitja áfram á hakanum.

 

Húsnæði Amtsbókasafnsins við Hafnargötu 7 sem var selt er samtals 270 fermetrar

 

Húsnæði skólabókasafnsins í skólanum við Borgarbraut 6 er um 110 fermetrar

 

Húsnæði á Hamraenda er nýtt sem geymsla fyrir Amtsbókasafnið 70 fermetrar

 

Í dag  eru því bókasöfn og bókageymslur á þremur stöðum samtals  450 fermetrar

 

Þegar núverandi meirihluti tók við stjórn bæjarins lá fyrir að fullkomið ófremdarástand gæti skapast í húsnæðismálum skólans nema strax yrði brugðist við.

 

Það var því tekin ákvörðun um að sameina Amtsbókasafnið og skólabókasafnið og byggja við Grunnskólahúsið nýja álmu sem er 550 fermetrar og samnýta hana bæði fyrir skólann og Amtsbókasafnið. Af þessu mun verða mikið hagræði.

 

Jafnframt er gert ráð fyrir því að bókasöfnin fengju geymslurými í Flugstöðinni sem bærinn á í dag  eða áfram í iðnaðarhúsinu á Hamraenda fyrir bækur og safnmuni sem ekki eru í daglegri notkun.

Með þessum  ráðstöfunum fékkst söluandvirði Hafnargötu 7 til framkvæmdanna og skólinn fær verulega viðbót við kennslurýmið. Þar er um að ræða það rými sem skólabókasafnið hefur í dag  sem og hluti hinnar nýju byggingu Amtsbókasafnsins sem getur hæglega verið nýttur þann tíma sem skólinn stendur, en þá er Amtsbókasafnið ekki opið. Grunnskólinn gæti því aukið við húsnæði sitt til kennslu og fyrir sérfræðinga svo sem sálfræðinga og kennsluráðgjafa um  allt að 400 fermetrum. Að þessu verkefni hefur verið unnið frá fyrsta degi þessa kjörtímabils og er þess að vænta að framkvæmdir geti hafist  sem fyrst á þessum vordögum.     

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri

 

 

meira...
31. mars 2016 09:17

Af bæjarmálum 31.3.2016

Í dag birtist grein eftir Sturlu Böðvarsson, bæjarstjóra, í Stykkishólmspóstinum. Greinina má nálgast hér

meira...
19. febrúar 2016 11:08

Stykkishólmshöfn aðili að samtökunum Cruise Iceland

Stykkishólmshöfn aðili að samtökunum Cruise Iceland

 

Þær hafnir sem taka á móti skemmtiferðaskipum hafa með sér samtök sem nefnast Cruise Iceland. Síðasta sumar tókust samningar við skipuleggjendur slíkra siglinga við strendur landsins  um að Stykkishólmshöfn tæki á móti skemmtiferðaskipum og þar væri veitt nauðsynleg þjónusta við farþega og áhöfn skipa. Þessi frumraun í móttöku skemmtiferðaskipa í Stykkishólmshöfn tókst svo vel sumarið 2015 að nú hafa 14 komur skemmtiferðaskipa verð bókaðar  hjá hafnarverði sumarið 2016 sem er mjög ánægjulegt. 

 

Í kjölfar þess að siglingar til Stykkishólms  eru hafnar var samþykkt í bæjarstjórn að Stykkishólmshöfn verði fullgildur aðili að Cruise Iceland og hefur verið undirritaður samstarfssamningur vegna þess. Með því að Stykkishólmshöfn verði þátttakandi í þessum samtökum öðlast höfnin rétt til  þess að vera í öllum kynningarbæklingum sem samtökin láta gera. Má því búast við að umferð skemmtiferðaskipa aukist um höfnina sem er jákvætt. Tekjur hafnarinnar vegna hafnargjalda og seldrar þjónustu mun aukast og einnig munu viðskipti farþega glæða þjónustustarfsemi og verslun i bænum þegar farþegar mæta í land og njóta þess sem í boða er í bænum.

 

Þess er vert að geta að samtök þessi voru stofnuð árið 2004 þegar undirritaður var samgönguráðherra og var af því tilefni gerð ferð til Miami þar sem Ísland var kynnt sem land tækifæranna í siglingu skemmtiferðaskipa. Það má segja að það hafi gengið eftir miðað við þann fjölda skemmtiferðaskipa sem sigla við landið á hverju ári og eru mikilvæg viðbót í fjölbreyttri flóru ferðaþjónustunnar.

 

Stykkishólmi 18. Febrúar 2016

 

Sturla Böðvarsson Bæjarstjóri/ Hafnarstjóri Stykkishólmshafnar

 

 

meira...
12. febrúar 2016 09:58

Skipulag lóðar fyrir nýtt hótel

Í gildandi aðalskipulagi sem samþykkt var árið 2002 er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði við Sundvík sunnan við land jarðarinnar Víkur sem stóð uppaf Móvíkinni  og var þar stundaður fjárbúskapur allt framundir síðustu aldamót. Síðasti bóndinn í Vík var Þorgrímur Bjarnason.  

 

Á fundi bæjarráðs í gær 11. febrúar  var samþykkt að undirbúa deiliskipulag af svæðinu. Fram hafa komið fyrirspurnir um lóð fyrir hótelbyggingu í austurhluta bæjarins  og er því nauðsynlegt að vinna deiliskipulag af svæðinu. Á þessari lóð hafa verið hönnuð mannvirki svo sem sundlaugar og heilsuböð í takt við „blátt lón“ eða „jarðböð“ og var þá miðað við að nýta affallið sem rann frá hitaveitunni í Móvíkina. Allt voru það mjög áhugaverð áform sem ekki urðu að veruleika.

 

Á heimasíðu bæjarins er listi yfir lausar lóðir til úthlutunar og er þetta svæði meðal þeirra lóða sem þar eru og því lausar til umsóknar. Þegar um svo sérhæfða byggingu sem hótel er að ræða, og á lóð sem hefur sterk sérkenni utan við byggðina, er eðlilegt að bæjaryfirvöld fái tillögur að deiliskipulagi frá þeim sem sækir um lóðina sem síðan er full unnið af skipulagsarkitekt bæjarins. Þess er að vænta að þarna geti risið glæsileg mannvirki sem falla vel að landi og þeim aðstæðum sem eru í nágrenni við skógræktarsvæðið og Golfvöllinn.

 

Stykkishólmi 12.2.2016

 

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri

 

meira...
14. janúar 2016 04:05

Áramótapistill í Stykkishólmspóstinum

Bæjarstjóri ritaði áramótapistil í Stykkishólmspóstinn sem kom út 14.01.2016. Hann má nálgast á vef Stykkishólmspóstsins: http://snaefellingar.is/?p=34508.

meira...
9. desember 2015 08:56

Tölvupóstur sem var sendur til bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins í gær þriðjudag 8.12.2015

Sæl öll ágætu aðal-og varabæjarfulltrúar og þið sem póst þennan fáið.

 

Vona að þið hafið ekki orðið fyrir tjóni eða verulegum óþægindum í hvassviðrinu í gær og í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá þeim sem stóðu vaktina í nafni Almannavarna var ekki tjón eða slys hér í Stykkishólmi af völdum veðursins. Vonandi gengur veðurofsinn hratt niður.

 

Þegar Ríkislögreglustjóri, í samráði við alla lögreglustjóra á landinu, lýsti yfir Óvissustigi vegna óvenju slæmrar veðurspár fyrir allt landið boðaði ég til fundar í gærmorgun  að höfðu samráði við Lögreglustjóra Vesturlands. Til þess fundar mættu Sigurbjartur Loftsson byggingarfulltrúi, Guðmundur Kristinsson  slökkviliðsstjóri, Þór Örn Jónsson  bæjarritari, Högni Friðrik Högnason bæjarverkstjóri, Bergur Hjaltalín umsjónarmaður fasteigna, Hrannar Pétursson hafnarvörður, Einar Strand formaður Björgunarsveitarinnar og yfirlögregluþjónn Lögregluumdæmisins á Vesturlandi Ólafur Guðmundsson.

 

Ég greindi frá tilkynningu Ríkislögreglustjóra og var farið yfir forvarnaraðgerðir í bænum og verkum skipt við að hafa samband við þá sem talið var nauðsynlegt að gættu að eignum sínum vegna hvassviðrisins og einnig skipulagðar aðrar aðgerðir svo sem að óska eftir að iðnaðarmenn væru tilbúnir að bregðast við útkalli. Í kjölfarið var sett viðvörun á heimasíðu bæjarins og haft samband við stjórnendur allra stofnana bæjarins og vakin athygli á viðvörun og hvatt til þess að gæta að nauðsynlegum forvarnaraðgerðum.

 

Að ósk Lögreglustjórans voru byggingarfulltrúi, slökkviliðsstjóri og formaður Björgunarsveitarinnar kallaðir síðdegis til starfa á Lögreglustöðinni í stjórnstöð Almannavarna fyrir Vesturland og stóðu þeir þar vaktina eftir nánari ákvörðun lögreglunnar. Slökkviliðið og Björgunarsveitin var í viðbragðsstöðu auk þess sem hafnarvörður stóð vaktina við höfnina og  starfsmenn bæjarins í Áhaldahúsi sinntu margvíslegum forvarnarverkefnum svo sem að taka niður Jólatréð í Hólmgarði til þess að koma í veg fyrir að það brotnaði í veðurofsanum sem var spáð.

 

Í viðhengi er póstur frá Lögreglustjóranum á Vesturlandi þar sem hann greinir frá framvindu aðgerða og stöðu mála.

 

Vildi láta ykkur fá þessar upplýsingar um leið og ég færi þeim bestu þakkir sem stóðu vaktina í þágu bæjarbúa.

 

Með góðri kveðju,

Sturla Böðvarsson, Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

meira...
24. ágúst 2015 08:12

Til nýrra íbúa í Stykkishólmi.

Til nýrra íbúa í Stykkishólmi.

 

Um leið og undirritaður bíður nýja íbúa í Stykkishólmi velkomna til bæjarins er minnt á nauðsyn þess að skrá lögheimili sitt rétt og með því tryggt að öll íbúaréttindi séu til staðar.

 

Stykkishólmi, 24.ágúst 2015  

 

Sturla Böðvarsson

Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

meira...
28. júlí 2015 08:23

Frá bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar

Bæjarráð ályktar um sérstakar umferðaröryggisaðgerðir vegna umferðar við gististaði í bænum.

Á síðasta fundi bæjarráðs var fjallað um fjölmörg erindi þar sem óskað er eftir leyfi til þess að reka gistiþjónustu. Fjölgun erlendra ferðamanna sem streyma til okkar fagra lands kallar á uppbyggingu innviða og þar á meðal byggingu gistihúsa og hótela. Verulegar tekjur virðast vera af rekstri heimagistingar ef marka má aðsóknina í að fá rekstrarleyfi vegna þeirrar starfsemi. Bæjarstjórn hafa borist athugasemdir frá íbúum sem eðlilega óttast aukna umferð um íbúðargötur og slysahættu sem stafar frá umferðinni. Það er mat bæjarráðs að ekki sé mögulegt að leyfa einum en banna öðrum að reka heimagistingu. Þess í stað verði að setja reglur um fjölda bílastæða og aðkomu að gistihúsunum. Til þess að bregðast við var svofelld bókun samþykkt á fundi bæjarráðs  23. Júlí 2015.

 

„ Vegna fjölmargra beiðna um rekstrarleyfi fyrir gistiþjónustu samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að láta vinna áætlun um sérstakar umferðaröryggisaðgerðir vegna aukinnar umferðar ökutækja í nágrenni gististaða. Að því komi bæjarráð, byggingafulltrúi, skipulags-og bygginganefnd og fulltrúar lögreglu.

Jafnframt verði gerð sérstök samþykkt um fjölda bílastæða við gistihús og heimagistingu sem verði þá innan lóða þeirra húsa þar sem gistingin er rekin samkvæmt rekstrarleyfi.

Bæjarráð leggur áherslu á að bæjaryfirvöld Stykkishólmsbæjar móti  heildarsýn að skipulagi gististaða og heimagistingar í bænum.“

 

Undirbúningur við að vinna þessar reglur er þegar hafinn. Ljóst er að reglur um umferð og bílastæði   þurfa einnig að ná til umferðar rútubíla og flutningabíla því þörfin fyrir bílastæði fyrir rútur er mjög vaxandi. Þess ber að geta að unnið er að því að deiliskipuleggja hafnarsvæðið með tilliti til þess að selja þar aðgang að bílastæðum. Þess er að vænta að gott samstarf geti orðið við íbúa bæjarins um þessar aðgerðir sem allar miða að því að bæta búsetuskilyrðin í bænum og tryggja að ekki verði raskað þeirri mynd friðsældar sem þarf að ríkja í okkar fallega bæ.

 

Stykkishólmi 25.7.2015

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

meira...
25. júní 2015 09:22
12. desember 2014 03:45
Á næstunni
Stykkishólmsbær - Kt. 620269-7009 - Hafnargötu 3 - 340 Stykkishólmur - Sími 433 8100 - Fax 438 1687 - stykkisholmur@stykkisholmur.is - Starfsmenn - Veftré