Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi

Hvað er EarthCheck?

Vottunarsamtökin EC3 Global eru áströlsk samtök sem sjá um vottun samfélaga og ferðaþjónustuaðila og geta veitt þeim umhverfismerki. Samtök þessi hafa umsjón með EarthCheck vottunarkerfinu, sem byggir á hugmyndafræði Dagskrár 21 um ábyrga stjórnun og sjálfbæra þróun og var sett á fót með stuðningi Alþjóða ferðamálaráðsins og Alþjóða ferðamálasamtakanna árið 1994. Í upphafi gekk vottunarkerfið undir nafninu Green Globe en fyrri hluta árs 2010 varð breyting á og kerfið tók upp merki EarthCheck. EarthCheck umhverfismerkið er notað á ferðaþjónustufyrirtæki og ferðaáfangastaði sem vilja stuðla að sjálfbærri þróun. Merkið nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, enda hafa samtökin vottað aðila í yfir 50 þjóðlöndum í öllum heimsálfum. Erlendis er því um þekkt og traust umhverfismerki að ræða.

EC3 Global eru enn sem komið er einu vottunarsamtökin í heiminum sem votta samfélög. Vottunarkerfið felur í sér að samtökin setja viðmið fyrir samfélagið í heild og því er í raun um trúverðugri leið til umhverfisúrbóta að ræða en felst í til dæmis Staðardagskrárvinnu og vottun samkvæmt ISO 14001 staðli. Í þeim verkefnum setur viðkomandi aðili sér sjálfur viðmið og segir þátttaka því lítið til um frammistöðu í samanburði við aðra aðila, þótt hún sé jákvæð. Með vottunarkerfinu veita samtökin samfélögum ramma til þess að mæla frammistöðu sína og vinna að stöðugum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum.

Undirbúningur fyrir EarthCheck (þá Green Globe) hófst á Snæfellsnesi árið 2002. Sveitarfélögin fimm og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull gengu formlega inn í Green Globe ferlið í maí árið 2003 og náðu fyrst viðmiðum Green Globe í október 2004. Viðmiðum var náð á ný næstu árin og loks náðist formleg vottun frá Green Globe árið 2008. Þá var Snæfellsnes fjórða samfélagið í heiminum til þess að ná slíkri vottun og það fyrsta í Evrópu. Vottunin var endurnýjuð vorið 2010 og þá undir merkjum EarthCheck. Nánari upplýsingar um EarthCheck vottunina sem Stykkishólmsbær er aðili að er að finna á www.nesvottun.is.

Á næstunni
Stykkishólmsbær - Kt. 620269-7009 - Hafnargötu 3 - 340 Stykkishólmur - Sími 433 8100 - Fax 438 1687 - stykkisholmur@stykkisholmur.is - Starfsmenn - Veftré