Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi

Hollvinasamtök Stykkishólms 

 

 

 
Sunnudaginn 21. mars var haldinn stofnfundur hollvinasamtaka Stykkishólms. Nafn samtakanna er Hólmarar-Hollvinasamtök Stykkishólms. Á stofnfundinn mættu yfir 80 manns og voru miklir fagnaðarfundir meðal fólksins og gaman að sjá hvað brottfluttir Hólmarar sýna bænum sínum mikla hollustu.
Fyrstu stjórn félagsins skipa Guðbjörg Rut Pálmadóttir, Ásgerður Pálsdóttir, Haraldur Lárusson, Steinþór Sigurðsson og Gunnar Sturluson og munu þau skipta með sér verkum.
Mikill áhugi kom fram hjá hollvinum á fundinum að vinna að verkefnum sem snerta Stykkishólm og hlúa að bænum í framtíðinni.
 
Hér að neðan má sjá Samþykktir Hollvinasamtaka Stykkishólms.
 

 

 

Samþykktir

Hollvinasamtaka Stykkishólms

 

1. grein

Samtökin heita Hollvinasamtök Stykkishólms, skammstafað HS. Heimili þeirra og varnarþing er í Stykkishólmi. Samtökin eru frjáls félagasamtök einstaklinga, stofnana, samtaka og fyrirtækja.

 

2. grein

Tilgangur samtakanna er: Að styrkja og efla byggð, atvinnulíf og menningu í Stykkishólmi og standa vörð um sögu og starf svæðisins.

 

3. grein

Aðild að samtökunum er öllum frjáls. Til að vísa aðila úr félaginu þarf samþykki 2/3 félaga.

 

4. grein

Stjórn og stjórnarkosning. Stjórn samtakanna skal skipuð fimm mönnum. Stjórnarmenn skulu kosnir úr hópi félagsmanna til tveggja ára í senn, en þó er engum heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil, þ.e. 6 ár. Skal kosið um tvo stjórnarmenn á hverju ári. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

 

5. grein

Kjör stjórnar fer fram við atkvæðagreiðslu á aðalfundi og eru allir félagsmenn kjörgengir til stjórnarsetu.

 

6. grein

Aðalfundur Til aðalfundar skal boðað með tryggilegum hætti með minnst 14 daga fyrirvara.

7. grein

Aðalfundur samtakanna skal haldinn fyrir lok ágústmánaðar ár hvert. Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi, skal efna til framhaldsaðalfundar. Í verkahring stjórnar er m.a.:

1.                  Að gefa skýrslu um starfsemi félagsins á síðastliðnu ári.

2.                  Að taka ákvarðanir um tillögur til lagabreytinga.

3.                  Að afgreiða ályktanir aðalfundar.

4.                  Stjórnarkjör.

5.                  Önnur mál.

 

8. grein

Stjórnarfundir og stjórnarstörf. Formaður skal boða til funda og gegna öðrum venjulegum formannsstörfum. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Ritari skal halda gerðabók um stjórnarfundi. Stjórnarfundir eru ályktunarfærir, ef meirihluti stjórnar mætir. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.

 

9. grein

Félagsfundir. Félagsfundi skal boða svo oft sem þurfa þykir og er stjórninni skylt að efna til þeirra ef fjórðungur fullgildra félagsmanna krefjast þess og tilgreina fundarefni. Félagsfundi skal boða með auglýsingu í dagblöðum, útvarpi eða tölvupósti til félagsmanna með þriggja sólarhringa fyrirvara hið skemmsta. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. 

 

10. grein

Fundum skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ef ágreiningur verður um fundarsköp, úrskurðar fundarstjóri, en skotið getur hann ágreiningsefni undir atkvæði fundarmanna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum, nema annars sé getið í lögum þessum.

 

11. grein

Ýmis ákvæði. Komi fram tillaga um að leysa samtökin upp, verður hún eigi tekin til greina nema hún sé studd hið minnsta 1/4 félagsmanna og skal þá höfð um hana allsherjaratkvæðagreiðsla.Tillagan telst því aðeins samþykkt, að hún hljóti 2/3 greiddra atkvæða. Verði samtökin leyst upp skulu gerðarbækur þess og skjöl afhent Stykkishólmsbæ til fullrar eignar og umráða.

 

12. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar félagsins áður en til aðalfundar er boðað og þær auglýstar. Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar. Nái tillaga til lagabreytinga samþykki 2/3 hluta fundarmanna, fær hún gildi. Um leið og samþykkt er breyting á lögum skal ákveðið með fundarsamþykkt, hvenær breytingin tekur gildi.

 

Samþykktir samtakanna eins og þau eru birt hér, voru samþykkt á stofnfundi í Breiðfirðingabúð þann 21. mars 2004.

 

 

 

Á næstunni
Stykkishólmsbær - Kt. 620269-7009 - Hafnargötu 3 - 340 Stykkishólmur - Sími 433 8100 - Fax 438 1687 - stykkisholmur@stykkisholmur.is - Starfsmenn - Veftré