Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi

 

Dagbókarbrot grænfánans 2010-2011 (uppfært sept. 2011, getur tekið smá tíma að opnast)

Dagbókarbrot grænfánans 2009-2010  (síðast uppfært 28. júní 2010) 

Dagbókarbrot grænfánans 2008-2009   myndir og frásagnir

 

Leikskólinn í Stykkishólmi

- Áætlun um endurvinnslu og umhverfisverndarstarf -

 

Umhverfisstefna Leikskólans

Leikskólinn í Stykkishólmi hefur í skólastefnu sinni áætlun sem miðar að því að auka menntun og þekkingu og efla virðingu fyrir náttúru og umhverfi lands og hafs. Leikskólinn vill stuðla að góðri umgengni og sjálfbærri nýtingu allra auðlinda og vinna gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum. Í maí 2006 gekk skólinn til liðs við verkefnið ,,Skólar á grænni grein” og þann 30. maí 2007 var Grænfáninn afhentur af aðilum frá Landvernd og var hann afhentur í annað sinn 4. nóvember 2010.

 

Helstu markmið Leikskólans eru:

1. Að flokka og minnka sorp.

2. Að flokka og nýta pappír og pappa.

3. Að nota umhverfismerktar hreinsivörur.

4. Að versla sem mest í heimabyggð og lágmarka flutningsvegalengdir með magninnkaupum.

5. Að gera nemendur skólans meðvitaða um náttúruvernd og virka þátttakendur í ferlinu.

 

Umhverfissáttmáli Leikskólans í Stykkishólmi

Leikskólinn í Stykkishólmi ætlar að leggja sitt af mörkum til jarðarinnar. Það gerum við með því að tileinka okkur umhverfisvæna starfshætti og kenna börnunum að ganga vel um gróður í kringum okkur, gróðursetja og rækta í garðinum við Leikskólann. Að endurnýta pappír, jarðgera matarleifar og nota umhverfismerkt hreinlætisefni.

Þannig læra börnin smátt og smátt að ganga vel um og nýta betur það sem við höfum og að ganga ekki á höfuðstól náttúrunnar.

 

Leiðir að markmiðum:

Umhverfisnefnd.Nefndin er skipuð leikskólastjóra, matráði, fulltrúum deilda, foreldra og nemendum. Umhverfisnefnd hefur yfirumsjón með jarðgerðarkössum, endurvinnslutunnunni og framkvæmd áætlunarinnar á sinni deild. Nefndin fundar reglulega, fer yfir stöðu mála og upplýsir og kemur með ábendingar á næsta starfsmannafundi þar á eftir.  Áætlun um endurvinnslu og umhverfisverndarstarf leikskólans er aðgengileg á heimasíðunni, einnig fundargerðir nefndarinnar og sameiginleg dagbók deildanna.

- Umbúðir. Endurvinnanlegum umbúðum er safnað og þær settar í viðeigandi safntunnur sbr. sorpflokkun Stykkishólmsbæjar eða  nýttar undir perlur, málningu og til listrænnar sköpunar eða leiks. ,,Huppa” með mjólk í er staðsett í eldhúsi og hver deild nær sér í mjólk úr henni í könnur og því eru umbúðir undan mjólkurvörum í lágmarki.

Pappírsvinna. Blöð sem fara forgörðum, pappi og annar pappír er nýttur í skapandi starf t.d. pappamassa og pappírsgerð. Bylgjupappi, kassar og annar pappír sem ekki nýtist í leikskólanum er settur í grænu tunnuna.

Matarafgangar.Allir matarafgangar eru settir ýmist í brúnu tunnuna eða í dýrafóður. Börnin taka virkan þátt í því.

Fræðslan til barnanna og þátttaka þeirra er mikilvægur þáttur í endurvinnslu- og umhverfisstefnu leikskólans. Hver deild setur sér markmið og leiðir fyrir hvert skólaár og deildirnar halda úti sameiginlegri dagbók úr starfinu sem aðgengileg er foreldrum/forráðamönnum á heimsíðu leikskólans.

Börnin:

o   flokka matarafganga í þar til gerð ílát og gera tilraunir með moltugerð.

o   aðstoða við að setja í brúnu tunnuna.

o   eru hvött til að vinna með verðlaust efni í listsköpun sinni.

o   eru virkjuð í flokkun á pappír, kynnast pappírsgerð og notkun pappamassa.

o   kynnast sínu nánasta umhverfi og læra að bera virðingu fyrir náttúrunni og ganga vel um.

 

Innkaup. Vandað er til vals á pappír og hreinlætisvörum og reynt eftir því sem hægt er að kaupa umhverfismerktar vörur. Magn innkaup eru með öllum stofnunum Stykkishólmsbæjar. 

(Úr skólanámskrá 1. útgáfu mars 2008).

 

Umhverfismarkmið leikskólans í Stykkishólmi 2010-2012 eru að:

1. Kynnast umhverfi skólans á sem fjölbreyttastan hátt.

2. Nýta pappír sem best.

3. Flokka allt sorp.

4. Rækta grænmeti og fleira t.d. kartöflur og krydd.

5. Fara sparlega með vatn og rafmagn. 

 

Annað efni

 

 

 

Leikskólinn í Stykkishólmi - Búðanesvegi 2 - 340 Stykkishólmi - Sími 433-8128 - leikskoli@stykkisholmur.is