Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi

Tónlist í leikskólanum 

 

Leikskólinn í Stykkishólmi leggur áherslu á skapandi starf í sinni víðustu mynd. Er þar verið að tala um að efla skapandi hugsun, það að örva og virkja frjótt ímyndunarafl barnanna til skapandi verka; myndsköpunar, tónlistarsköpunar og annarrar tjáningar af ýmsu tagi.

     Tónlistin er í aðalnámsskrá leikskóla skilgreind sem eitt af námssviðum leikskólanna, ásamt náttúru og umhverfi, menningu og samfélagi, hreyfingu, málrækt og myndsköpun. Í leikskólastarfinu fléttast vinnan á þessum sviðum gjarnan saman og hér höfum við markvisst leitað leiða til þess.

     Leikskólinn á í samstarfi við grunn- og tónlistarskólana í Stykkishólmi sem tengist meðal annars áherslum okkar í tónlistinni. Hugmyndafræðin sem liggur að baki samstarfinu byggir á þeirri kenningu að áhrifin, þekkingin og hæfnin sem börnin öðlast í tónlistaruppeldinu færist yfir á annað nám m.a. efli skapandi hugsun þeirra. Iðkun tónlistar hentar vel fyrir öll börn, sama hvar þau eru stödd þroskalega séð. Tónlistin gerir þau oft öruggari með sjálf sig, hún þjálfar einbeitingu þeirra og félagsþroska. En þótt við horfum til þeirra áhrifa sem tónlistin hefur á annað nám þá er tónlistin fyrst og fremst hennar sjálfrar vegna og áhrifa hennar á þroska okkar og líðan. Það að hún hafi áhrif á getu okkar á öðrum námssviðum lítum við á sem auka bónus.

 

Markmiðin með samstarfinu í tónlistinni eru fyrst og fremst að stefna að því að ná samfellu í skólagöngu barnanna og tónlistaruppeldi þeirra. Að byrjað sé markvisst í leikskólanum, þannig að börnin þjálfist í undirstöðuþáttunum og haldi svo áfram í beinu framhaldi þegar kemur upp í grunnskólann. Við viljum mynda jákvæð viðhorf til tónlistar og gera hana að eðlilegum og lifandi þætti í okkar menningarheimi.

Og hvernig vinnum við svo með tónlistina í leikskólanum, hvað erum við að kenna? Það hefur viljað brenna við innan þessa geira að starfsfólk fari í vörn og veigri sér við að vinna með tónlistina að einhverju marki í leikskólunum. Fyrst og fremst vegna óöryggis, þ.e.a.s. það hefur ekki trú á sjálfu sér, finnst það ekki kunna nóg, spili m.a. ekki á hljóðfæri. En málið er, að það geta þetta flestir, áhuginn skiptir mestu máli og smá leiðsögn þar sem þörf er á. Við lærum svo með börnunum og byggjum upp okkar þekkingu smátt og smátt með því að takst á við hlutina. Við erum ekki að tala um það að kenna leikskólabörnunum á hljóðfæri, að þau kunni svo og svo margar nótur þegar þau útskrifast héðan. Heldur erum við að vinna með grunninn, byggja undir það sem síðar kemur með aukinni reynslu og þroska.

     Við þekkjum öll hvernig lítil börn bregðast við tónlist, þau stoppa og hlusta eða fara að dilla sér fyrir framan græjurnar. Nýfædd börn nema hljóð og tóna mjög vel og rannsóknir hafa sýnt að fóstur heyri og hlusti. Við fæðumst með upplag sem kallast tónnæmi, sem sumir myndu kannski kalla hæfileika eða greindir. Þetta er til staðar í öllum einstaklingum. Hvernig það svo síðar þroskast er undir umhverfinu komið, hvaða tækifæri eru til staðar. Hvernig er sá menningarheimur sem barnið elst upp í? Sum börn hafa tónlist allt í kringum sig frá fæðingu. Pabbi eða mamma eru í kór eða spila á hljóðfæri, eldri systkini að æfa sig, oft farið á tónleika o.s.frv. á meðan önnur heyra ekkert um tónlist, nema það sem þau heyra ef til vill úr útvarpinu. Það sem við  gerum hér í leikskólanum er einmitt, að gefa börnum tækifæri til þess að alast upp við jákvæð viðhorf gagnvart tónlist og næg tækifæri til að kynnast henni á fjölbreyttan hátt.

 

Í aðalnámskrá leikskóla (1999) er tekið fram að helstu þættir í tónlistariðkun leikskólabarna eigi að vera söngur, hreyfing, hlustun og leikur með hljóðgjafa. Þar segir líka, að með tónlistaruppeldi í leikskóla eigi að stuðla að því að barn þroski með sér:

  • næmi fyrir hljóðum, hreyfingu og hrynjandi/rýtma.
  • frumkvæði og frjálsa, skapandi tjáningu og túlkun á tónlist.

Við vinnum hér með grunnþætti tónlistarinnar á fjölbreyttan hátt í söng, vinnu með einfalda hljóðgjafa, hlustun og hreyfingu. Inn í þetta fléttum við svo hin námssvið leikskólans.

 

Fræðilega má segja, að tónlist sé skipulögð hljóð og hljóðið megi svo skilgreina út frá frum- og túlkunarþáttum þess, sem eru lengd, hæð, blær, styrkur og hraði. Með þetta erum við t.d. að vinna.

 

Með tónlengd er átt við löng og stutt hljóð. Helstu hugtökin þar eru langt/stutt og svo púls og rýtmi eða hrynur. Við gerum mikið af því að slá púlsinn með lögum og klappa rýtmann og telja atkvæði orða. Við tökum þá gjarnan orð eða setningar út úr lögum og vinnum sérstaklega með. Við sjáum mjög fljótt miklar framfarir hjá börnunum varðandi tilfinningu þeirra fyrir fjölda atkvæða í orðum og oft um leið, rími.

 

Með tónhæð er átt við há eða lág hljóð og hreyfingu hljóðsins. Í því felst t.d. laglína, rísandi/fallandi eða endurteknir tónar. Við notum þá mikið hendurnar til þess að tákna hreyfingu hljóðsins, förum t.a.m. ,,upp á fjall og svo niður aftur” og fylgjum hreyfingu flugunnar í ,,býflugunni” o.s.frv.

 

Við vinnum með hin ýmsu blæbrigði og notum þá bæði röddina, svipbrigði, hljóðgjafa og annað sem hægt er að nota til þess að túlka það sem við erum að gera, svo það verði ekki allt eins. Við syngjum t.d. ,,Hérna koma nokkur risatröll” með dimmum og djúpum tón og svo frekar þung í framan líka, en þegar kemur að ,,en bak við ský er sólin hlý í leyni” þá birtir yfir öllu, bæði andlitunum og tóninum sem við syngjum.

 

Með ýmsum hljóðgjöfum bæði hefðbundnum eins og hristum, stöfum og trommum og svo óhefðbundnum eins og steinum, prikum, skeljum o.fl. getum við kallað fram ýmis blæbrigði í lögum, hljóðskreytt einfaldar sögur o.fl. Hugmyndaflugið ræður þar ríkjum.

 

Styrkur hljóðsinsfelur í sér sterkt (forte) og veikt (piano) og líka styrkleikabreytingar. Við syngjum lögin með mismunandi styrk og notum þessi hugtök. Það getur þó verið mjög varasamt að segja börnum að syngja sterkara og oftar en ekki hafa starfsmenn fallið í þá gryfju og uppskorið hálfgert öskur í stað söngs.

En til þess að leggja þessi hugtök inn höfum við útbúið spjöld sem notuð eru til þess að börnin læri að þekkja muninn og þekkja táknin f (fyrir forte) og p (fyrir piano), þótt við tölum alltaf um veikt og sterkt. Á spjaldi fyrir veikt er t.d. mynd af manneskju sem er með fingurinn fyrir munninum eins og hún sé að segja ,,ussssss” og táknið p við hliðina. Á spjaldinum fyrir sterkt er aftur á móti mynd af manneskju sem er með vel opinn munninn og táknið f þar við hliðina. Við leggjum upp með það að það heyrist skýrt og vel og fallega í okkur þegar við syngjum sterkt, en ekki að við öskrum. Ef við ættum að öskra þyrftu að vera mikið fleiri f á spjaldinu a.m.k. 4 eða 5 !!!

 

Með hraða hljóðsins er auðvitað átt við hratt eða hægt, en líka hraðabreytingar. Við vinnum með hraðann jafnt og þétt og leikum okkur með lögin. Syngjum hratt og hægt til skiptis og svo alltaf hraðar og hraðar o.s.frv., leikum snígil að fara upp á fjall eða tígrisdýr að hlaupa niður, eftir því sem hugmyndirnar myndast og túlkum hraðann með söngnum á meðan, eða með  hreyfingum.

 

Við æfum okkur líka í því að byrja saman og enda saman og hafa þögn saman, þar sem við á. Við syngjum og spilum lög sem sérstaklega eru ætluð til þess að þjálfa þessa þætti (Spila saman – Hreyfa litla fingur o.fl.), auk þess sem við notumst við námsefnið Klapp/stapp sem hannað er af Sigurlínu Jónsdóttur á Akureyri.

 

Við reynum að nota tónlistarhugtökin sem mest, eftir því sem við höfum kunnáttu til, því ef þau eru notuð jafnt og þétt frá upphafi, um leið og unnið er með þættina, fara börnin smátt og smátt að tileinka sér hugtökin og þau verða hluti af orðaforða þeirra og okkar.

 

Það má segja að tónlistarvirkni skapi börnum tækifæri til að öðlast reynslu og þar með leikni sem leiði til aukinnar þekkingar og skilnings á tónlistinni, og um leið þeim sjálfum. Það hefur svo aftur áhrif á það hvernig viðhorf barnanna gagnvart tónlistinni mótast.

     Sú reynsla, sem börnin þurfa til að öðlast leikni felst í þremur mismunandi leikniþáttum þ.e. flutningi, greiningu og sköpun.  Flutningurinn nær yfir söng, hljóðfæraleik og hreyfingu. Með greiningu er m.a. átt við leikni í því að hlusta, lýsa, para saman hljóð, greina á milli hljóða og bera þau saman á ýmsan hátt, auk þess að lesa og skrifa hljóðin þ.e. koma þeim niður á blað og lesa það svo af blaðinu. Sköpunin felst í því að semja tónlist, finna upp, spinna og útsetja. Gott vægi þarf að vera á milli þessara þriggja leikniþátta í tónlistaruppeldinu og reynum við að koma að einhverju leyti inná þá alla.

 

Söngurinn á sér ríka hefð hér í leikskólanum. Hér er mjög mikið sungið og söngurinn mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Við reynum að hafa fjölbreytni í lagavalinu, bæði með tilliti til texta og laga. Hafa fjölbreyttan takt, gömul lög, ný lög, þjóðlög, bullvísur og þematengd lög og texta í bland. Yfirleitt kennum við lögin eins og þau koma fyrir, lærum alveg utan að og vinnum með á ýmsan hátt, klöppum með og setjum inn hreyfingar. En stundum leggjum við meiri áherslu á það að börnin þekki lögin og geti tekið undir í viðlagi og kannski einu og einu erindi. Þetta eru þá t.d. lög sem eru vinsæl á mannamótum og víða í þjóðfélaginu. Eldri börnin eru eðlilega fljótari til og læra oft lögin mjög fljótt en þau yngri taka þá undir eða hafa ánægju af því að klappa með og þess háttar. Hugsunin er, að hver og einn geti verið virkur, á sinn máta, og þau yngri læri smátt og smátt af þeim eldri.

Við hvetjum börnin mikið til þess að syngja ein fyrir hópinn og komast oft færri að en vilja. Það er áberandi hvað þau eru mörg orðin ófeimin og örugg í því að syngja ein fyrir framan hina, tjá sig og spinna upp úr sér jafnóðum.

     Söngstundir eru daglega inni á deildum og við hittumst svo tvisvar í viku, allar deildir saman, og syngjum og hreyfum okkur við gítarundirleik, eftir hádegi á miðvikudögum og fyrir hádegi á föstudögum. Þetta eru yfirleitt mjög skemmtilegar stundir og gott tækifæri til þess að syngja okkur saman og læra ný lög. Við höfum líka tekið eftir því, að ef við syngjum skilaboðin til barnanna þá náum við mun betur til þeirra.

 

Hreyfingin kemur fram hjá okkur á ýmsan hátt, með táknum í lögum, í dansi og ýmsum hreyfileikjum þar sem tónlistin er notuð, jafnt af diskum sem frá einni trommu, eða söng- eða talröddinni (sbr. Þegar við ruggum og stígum stokkinn með þeim yngstu). Slæða eða klútur hjálpar börnunum til þess að tengja hreyfingu sína við tónlistina. Við notum líka hljóðgjafa með hreyfingu. Til að byrja með samræma börnin ekki hreyfinguna við tónlistina en svo smám saman fara þau að fá tilfinningu fyrir því að tengja hreyfinguna við tónlistina, þ.e.a.s. púlsinn er kominn. Skilningurinn fer að sjást í atferlinu löngu áður en börnin hafa orðin yfir hlutina.

 

Hlustun er mikilvægur þáttur í tónlistaruppeldinu. Hljóðheimur nútímans er mjög margbreytilegur og mikið um áreiti. Því er mikilvægt fyrir börnin að fá tilfinningu fyrir og læra að greina á milli hljóða og velja úr, hvað þau vilja hlusta á. Við hlustum á ,,lag vikunnar” en það er eitthvað vel valið lag, af diskum eða spólum, sem við hlustum á í upphafi söngstunda. Oft eru þessi lög valin með tilliti til þess að hægt sé að vinna með þau eitthvað frekar síðar, þegar börnin þekkja þau orðið vel. Dæmi um það er ,,Býflugan” eftir Rymski Korsakov. Það lag hefur verið notað í hreyfingu og leiki ýmiskonar. Við notum lögin líka til þess að hlusta eftir ákveðnum þáttum t.d. veikum eða sterkum köflum, hraðabreytingum o.fl. í laginu.

Við teljum mjög mikilvægt að börnin fái tækifæri til þess að hlusta á lifandi tónlist og horfa og jafnvel snerta á hljóðfærunum. Við höfum því fengið heimsóknir hingað reglulega frá blokkflautusveit 1. bekkjar, auk þess sem aðrir hljóðfæraleikarar hafa líka komið og spilað fyrir okkur. Það að einhver horfi á okkur syngja eða spila er líka nauðsynlegt og því flytjum við líka alltaf eitthvað fyrir gesti okkar og raunar hvar sem við komum í heimsókn.

Við förum líka í sérstakar hljóðasöfnunarferðir úti, þar sem við leggjum okkur virkilega fram við að finna sem flest hljóð í umhverfinu og skrá þau niður og tala um þau. Hvað finnst okkur þægileg hljóð og hver eru óþægileg o.s.frv.

Við eigum orðið ágætis safn hljóðgjafa, þótt vissulega mætti bæta þar við og auka fjölbreytnina. Þetta eru hljóðfæri og hjóðgjafar sem krefjast ekki mikilla fínhreyfinga. Við notum hljóðfærin með smærri hópum, í hópastarfi og á einu svæði í valinu. Við höfum safnað að okkur ýmsu efni sem hentar vel til þess að nota hljóðgjafa við og erum þá um leið að æfa markvisst þá þætti sem við erum að þjálfa. Það er börnunum eðlilegt að spila látlaust ef þau fá hljóðfæri í hendur svo að það fer mikill tími í það að æfa það að byrja saman og stoppa og geyma hljóðfærin án þess að heyrist í þeim á milli þess sem við spilum. Til þess eru ýmsir leikir notaðir.

 

Við höfum það að leiðarljósi að börnin læri að njóta tónlistar, hvort heldur sem flytjendur, hlustendur eða skapandi einstaklingar.

Þar skipta jákvæð viðhorf miklu máli.

 

 (Unnið upp úr fyrirlestri sem Elísabet Lára Björgvinsdóttir hélt á aðalfundi foreldrafélagsins haustið 2003 um tónlistarstarfið í leikskólanum. Í fyrirlestrinum var m.a. notast við heimildir úr ritgerðinni ,, Tónlist í leikskóla - samþætt við önnur námssvið " sem var lokaverkefni hennar við KHÍ vorið 2001)

 

Annað efni

 

 

 

Leikskólinn í Stykkishólmi - Búðanesvegi 2 - 340 Stykkishólmi - Sími 433-8128 - leikskoli@stykkisholmur.is