Upplýsingar
Stærra letur
Minna letur
Listi
Listi

 

Málörvun á Ási

 

Málreynsla barna fyrir lestarnám skipti miklu máli. Sagt hefur verið: ,,Svo læra börnin málið að það er fyrir þeim haft”. Mörg börn fá málörvun strax á fyrstu ævidögum þegar þau eru hvött til að taka þátt í samræðum með hjali sínu. Það að byrja snemma að fara með vísur og þulur, syngja og segja börnunum sögur er talið skipta miklu máli. Vert er að hafa í huga að fyrsta lestarkennsla á sér stað þegar litla barnið er tekið í fangið, opnuð bók og rætt um myndirnar.

Öll börnin fá málörvunartíma inni í hópastarfinu einu sinni í viku í 20-30 mínútur í senn. Auk þess eru skilgreindir sérkennslutímar þegar þörf er á fyrir þau börn sem hafa notið leiðsagnar talmeinafræðinga hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Unnið er með ýmis verkefni af fjölbreyttum toga m.a.:

 

 • Litina.
 • Talningu.
 • Andstæður.
 • Eintölu og fleirtölu.
 • Hugtök.
 • Stuttar frásagnir og spurningar út frá þeim. Einnig út frá myndum.
 • Ýmsar munn- og tunguæfingar sem ætlaðar eru til þess að styrkja munnsvæðið, fyrir þau börn sem þurfa á því að halda.
 • Æfingar og leikir til að styrkja hljóðkerfisvitund barnanna.
 • Almenna vitneskju/umræður um t.d. veðrið, dagana, mánuðina, afmælisdaga, hátíðisdaga, fingurna, nöfnin okkar og okkar nánustu og fleira sem tengist nánasta umhverfi barnanna.
 • Rím og atkvæði orða og hlustum þá eftir þeim hljóðum sem við heyrum í orðunum.
 • Heilar setningar. Við hvetjum börnin til þess að tala (spyrja/svara) í heilum setningum.
 • Rétta lestarátt. Börn fæðast ekki með þá vitneskju í hvaða átt skuli lesið eða skrifað. Því er gott að láta fingurinn stundum fylgja línunni þegar verið er að lesa fyrir börnin.
 • Elstu börnin vinna einnig verkefni úr bókinni ,,Ljáðu mér eyra – undirbúningur fyrir lestur” eftir Ásthildi Bj. Snorradóttur og Valdísi B. Guðjónsdóttur talmeinafræðinga. Þar er mikið unnið með rím og hlustun en einnig sundurgreiningu setninga í orð og svo aftur orð í atkvæði.
 • Flest það sem unnið er með í málörvunartímunum er einnig unnið með í öðrum stundum dagsins svo sem tónlistar- og samverustundum og ýmsu hópastarfi.

 

Við notumst við bækurnar ,,Ljáðu mér eyra” (elstu börnin) og ,,Markvissa málörvun” eftir Helgu Friðfinnsdóttur, Sigrúnu Löve og Þorbjörgu Þóroddsdóttur, Lærum og leikum með hljóðin, eftir Bryndísi Guðmundsdóttir (smáforrit í ipad) ýmis spil, myndir, spjöld og texta sem við höfum komið okkur upp.

 

Vorið 2016 tókum við í notkun ,,Lubbi finnur málbein" og ,,Hljóðasmiðja Lubba", sem byggir á vinnu með íslensku málhljóðin. Efnið er eftir talmeinafræðingana Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur en Þórarinn Eldjárn hefur gert söngtexta við hvert málhljóð við þekkt lög.

 

Hljóm-2

Á haustin er HLJÓM-2 lagt fyrir elstu börnin, en það er íslenskt aldursbundið próftæki (skimun) í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund (hljóð- og málvitund) elstu barnanna í leikskólanum og er eftir Ingibjörgu Símonardóttur, talmeinafræðing, Jóhönnu Einarsdóttur, talmeinafræðing og Dr. Amalíu Björnsdóttur, dósent. HLJÓM-2 er byggt á rannsóknum sem stóðu yfir í 5 ár og benda niðurstöður til að strax í leikskóla fáist vísbendingar um hvernig lestrarnám muni ganga. HLJÓM-2 byggist á sjö mismunandi verkefnum sem lögð eru fyrir elsta árgang barna í leikskólum að hausti. Einungis fagfólki leikskóla, með tilskilin réttindi, er heimilt að leggja prófið fyrir. Niðurstöðurnar eru marktækar vísbendingar um hvaða börn eru í áhættu fyrir síðari lestrarörðugleika og mikilvægar til þess að hægt sé að vinna markvisst með þá þætti sem hugsanlega liggja ekki vel fyrir börnunum, þennan síðasta vetur þeirra í leikskólanum. Þættirnir (leikirnir) sem lagðir eru fyrir tengjast: Rími, samstöfum, hljóðgreiningu, samsettum orðum, margræðum orðum, orðhlutaeyðingu og hljóðtengingu. Fyrirlögnin tekur u.þ.b. 20-30 mínútur, með hvert barn.

 

Annað efni

 

 

 

Leikskólinn í Stykkishólmi - Búðanesvegi 2 - 340 Stykkishólmi - Sími 433-8128 - leikskoli@stykkisholmur.is